Erlent

Lög­reglu­yfir­völd segjast geta höndlað allt að 50 þúsund mót­mælendur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Búist er við mótmælum þegar Trump verður leiddur fyrir dómara.
Búist er við mótmælum þegar Trump verður leiddur fyrir dómara. AP/Alex Brandon

Mikill viðbúnaður er í Miami þar sem Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti mun mæta fyrir dóm í dag. Lögregla hefur unnið að því að fullvissa íbúa um að hún sé fær um að takast á við ástandið og allt að 50 þúsund mótmælendur.

Manuel Morales, lögreglustjóri borgarinnar, segir yfirvöld taka málið alvarlega og að mögulega gæti farið illa en það sé ekki „Miami-hátturinn“.

Trump verður „handtekinn“ og færður fyrir dómara í dag í tengslum við ákærur á hendur honum er varða leyniskjöl sem hann tók með sér þegar hann yfirgaf Hvíta húsið og neitaði að afhenda. Þá er hann sagður hafa rætt innihald þeirra við einstaklinga utan stjórnkerfisins.

Þetta er í annað sinn á árinu sem staðaryfirvöld í Bandaríkjunum hafa þurft að grípa til ráðstafana vegna dómsmála á hendur Trump en mikil viðbúnaður var í New York þegar hann var leiddur fyrir dómara þar í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels.

Sú fyrirtaka gekk þó átakalaust fyrir sig.

Trump spilaði golf í New Jersey í gær og flaug þaðan til Miami, þar sem hann dvaldi á Trump National Doral Miami golfklúbbnum í nótt. Lögregla mun fylgja honum þaðan að dómshúsinu í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×