Fótbolti

Bayern mistókst að tryggja sér titilinn

Smári Jökull Jónsson skrifar
Glódís Perla var í byrjunarliði Bayern í dag.
Glódís Perla var í byrjunarliði Bayern í dag. Vísir/Getty

Íslendingaliðið Bayern Munchen mistókst að tryggja sér þýska meistaratitilinn í dag en liðið gerði jafntefli við Leverkusen á útivelli. Bayern er þó í góðri stöðu fyrir lokaumferðina.

Fyrir leikinn í dag var Bayern í góðri stöðu. Liðið var með fjögurra stiga forystu á Wolfsburg og gat því tryggt sér titilinn með sigri gegn Leverkusen.

Glódís Perla Viggósdóttir byrjaði í vörn Bayern í dag en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var á bekknum. Cecilía Rán Rúnarsdóttir var hins vegar ekki í leikmannahópi Bayern.

Lið Bayern sótti mun meira í leiknum og átti tuttugu tilraunir að marki heimakvenna. Það gekk þó erfiðlega að koma boltanum á rammann og hvað þá í netið. Leverkusen náði að halda út og niðurstaðan í dag var markalaust jafntefli. 

Bayern er því með fimm stiga forskot í deildinni en Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur hennar í Wolfsburg á leik á morgun gegn SV Meppen og getur þá minnkað muninn í tvö stig. Nái Wolfsburg ekki sigri verður Bayern meistari á morgun.

Í lokaumferðinni mætir Bayern fyrrum stórliðinu Turbine Potsdam sem vann sex titla á árunum 2003-2012. Nú er Potsdam hins vegar í neðsta sæti þýsku deildarinnar, þegar fallið í næst efstu deild og því á Bayern sigurinn vísan á heimavelli í síðustu umferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×