Innlent

„Þessi spjald­tölva er röddin hans“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Sigurgeir saknar spjaldtölvunnar sinnar mjög að sögn föður hans sem biðlar til þess sem hefur hana að skila henni. Hér er hann með skólatöskuna sem var stolið.
Sigurgeir saknar spjaldtölvunnar sinnar mjög að sögn föður hans sem biðlar til þess sem hefur hana að skila henni. Hér er hann með skólatöskuna sem var stolið. Ívar Pétur Hannesson

Sam­skipta­tölvu sjö ára drengs með ein­hverfu var stolið í nótt úr vinnu­skúr föður hans. Pabbi hans biðlar til al­mennings um upp­lýsingar um tölvuna og heitir því að verði henni skilað verði engir eftir­málar.

„Það var fullt af alls­konar dóti stolið úr skúrnum, eins og rán­dýr GPS búnaður en það eina sem skiptir mig máli að finna aftur er þessi tölva,“ segir Ívar Pétur Hannes­son, fjöl­skyldu­faðir á Völlunum í Hafnar­firði. Sonur hans Sigur­geir Bjarni Ívars­son er með sjald­gæfan erfða­sjúk­dóm og ein­hverfur og þarfnast tölvunnar mjög.

Löng bið eftir nýrri

„Þessi spjald­tölva er röddin hans og er hann að læra á hana í skólanum,“ skrifar Ívar í færslu á sam­fé­lags­miðlinum Face­book þar sem hann lýsir eftir tölvunni. Hann segir að sérpanta þyrfti nýja tölvu og fjölskyldan bindi því miklar vonir við að þessi finnist. 

„Við vorum í marga mánuði að fá þessa tölvu upphaflega, ætli þetta hafi ekki verið einhverjir átta eða tíu mánuðir og yrði líklega svipað núna.“

Tölvan var í skóla­tösku sonar hans og var taskan auk ýmis annars búnað tekinn úr skúrnum í nótt. „Tölvan lítur í raun út eins og venju­leg spjald­tölva nema að það er fastur há­talari neðst á henni og hand­fang að ofan,“ segir Ívar.

Ívar kveðst miður sín yfir því að eiga ekki aðrar myndir en þessa af samskiptatölvunni. Ívar Pétur Hannesson

Engir eftirmálar ef henni verður skilað

Tölvan er frá fram­leiðandanum Topii og er í svartri tau­tösku. Ívar segist engar á­bendingar hafa fengið vegna málsins enn sem komið er en segir lög­reglu auk þess kanna málið.

„Ég væri alveg til í að fá hana til baka og ef ein­hver getur gefið mér upp­lýsingar um hana skal ég borga góð fundar­laun fyrir. Sömu­leiðis ef við­komandi skilar henni sjálfur verða engir eftir­málar.“

Ívar, ásamt eiginkonu sinni Söndru Sigurðardóttir. Hann segir að verði tölvunni skilað sé málinu lokið af sinni hálfu. Ívar Pétur Hannesson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×