Fótbolti

Ancelotti: Jöfnunarmark Manchester City var ólöglegt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlo Ancelotti talar við Artur Dias Soares dómara eftir leikinn í gær.
Carlo Ancelotti talar við Artur Dias Soares dómara eftir leikinn í gær. Getty/Angel Martinez

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Real Madrid, var mjög ósáttur með jöfnunarmark Manchester City í fyrri leik liðanna í gærkvöldi í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.

Kevin De Bruyne tryggði City 1-1 jafntefli á Santiago Bernabeu eftir að Vinicius Junior hafði komið Real Madrid yfir með frábæru marki í fyrri hálfleiknum.

Það er því allt jafnt fyrir seinni leik liðanna sem fer fram á Etihad leikvanginum í Manchester 17. maí næstkomandi.

Real Madrid ætti að vera með eins marks forskot að mati Carlo Ancelotti og fleiri. Ástæðan er að boltinn fór út af vellinum í aðdraganda marks De Bruyne.

„Það leit út fyrir að boltinn hafi farið út af vellinum. Fyrir það áttum við líka að fá horn sem dómarinn gaf ekki. Dómarinn var ekki mjög eftirtektarsamur. Hann gaf mér gult spjald og ég sagði: Lyftu þeim inn á vellinum en ekki utan hans,“ sagði Carlo Ancelotti eftir leikinn.

„Boltinn fór út af vellinum. Ég er ekki bara að segja það því tæknin sýnir okkur það,“ sagði Ancelotti á blaðamannafundi eftir leikinn. Hann furðaði sig á því af hverju myndbandadómaranir skoðuðu ekki atvikið.

„Þetta kemur mér á óvart. Þetta eru lítil atriði en dómarinn fylgdist ekki nógu vel með. Leikmenn áttu að fá fleiri spjöld inn á vellinum en ekki ég utan hans,“ sagði Ancelotti.

„Mér líður samt vel með þennan leik. Við veittum þeim alvöru keppni, börðumst og áttum kannski skilið að vinna. Þetta var góður leikur. Úrslitin verðlauna ekki frammistöðuna en þetta einvígi mun ekki vinnast fyrr en á síðustu mínútunni,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×