Allt undir í seinni leiknum eftir jafntefli í Madríd

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kevin De Bruyne jafnaði metin fyrir Manchester City í kvöld.
Kevin De Bruyne jafnaði metin fyrir Manchester City í kvöld. Julian Finney/Getty Images

Real Madrid og Manchester City gerðu 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Þetta er annað árið í röð sem þessi lið mætast í undanúrslitum keppninnar, en í fyrra fór Real Madrid áfram á dramatískan hátt.

Það voru gestirnir frá Manchester sem virtust hættulegri í upphafi leiks og liðið skapaði sér nokkur hálffæri, án þess þó að setja Thibaut Courtois í teljandi vandræði í marki heimamanna.

Ríkjandi Evrópumeistarar Real Madrid eru þó með svarta beltið í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar og þeir skoruðu með sínu fyrsta skoti í leiknum þegar Vinicius Jr. tók sprettinn í átt að marki og lét vaða af löngu færi á 36. mínútu. Skotið var fast og út í horn og söng í netinu, staðan orðin 1-0 og þannig stóðu leikar þegar flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var svo keimlíkur þeim fyrri þar sem liðin þreifuðu fyrir sér og reyndu að finna glufur á varnarlínum andstæðingana. Það var því við hæfi að Kevin De Bruyne jafnaði metin fyrir gestina á 67. mínútu með bylmingsskoti fyrir utan teig og þar við sat.

Niðurstaðan varð því 1-1 jafntefli og liðin fara með jafna stöðu inn í síðari leikinn sem fram fer á miðvikudaginn eftir rúma viku.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira