Sport

Mikil spenna á Íslandsmótinu í sundi Garpa

Smári Jökull Jónsson skrifar
Það er líf og fjör á Íslandsmóti Garpa í sundi.
Það er líf og fjör á Íslandsmóti Garpa í sundi. Aðsend

Mikil spenna og gleði ríkir í Kópavogslauginni, en þar fer fram Íslandsmótið í sundi. Keppendur eru 25 ára til rúmlega 80 ára, frá sundfélögum af öllu landinu.

Alls hafa tíu Garpamet verið sett á mótinu og setti Breiðablik fjögur þeirra í boðsundi. Vilborg Sverrisdóttir úr Sundfélagi Hafnarfjarðar og þær Birna Íris Jónsdóttir og Ásta Þ. Ólafsdóttir úr Breiðablik settu nokkur Garpamet og er mikil stemning meðal eldri keppenda, en kringum fimmtán keppendur eru eldri en 70 ára.

Valdimar Páll Halldórsson mótsstjóri segir mótið hafa gengið gríðarlega vel. 

„Frábærar aðstæður í Kópavogi og keppendur í miklum ham, greinilegt að sundið er á mikilli siglingu hjá fólki á öllum aldri“. 

Tímatökubúnaður mótsins bilaði en Sundfélag Hafnarfjarðar og Akranes hlupu þá til aðstoðar og lánuðu nýjan búnað.

Nú þegar tveimur af þremur mótshlutum er lokið leiðir Breiðablik keppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Mikil spenna er í gangi því Sundfélag Hafnarfjarðar er ekki langt undan og Sundfélag Akranes þar á eftir.

Hákon Jónsson þjálfari Breiðabliks var ánægður með hvernig mótið hefði gengið. 

„Það eru allir að sýna sitt besta og mikil gleði. Tíminn eða árangur á mótinu er ekki aðal málið heldur það að þora að taka þátt, ögra sjálfum sér og taka afstöðu með eigin heilsu – það er svo frábært“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×