Erlent

Mögulega aðeins „toppurinn á ísjakanum“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólkinu var skipað að svelta sig til dauða til að „hitta Jesú“.
Fólkinu var skipað að svelta sig til dauða til að „hitta Jesú“. AP

Að minnsta kosti 90 hafa fundist látnir á búgarði í Kenía, þar sem leiðtogi sértrúasöfnuðar er grunaður um að hafa fyrirskipað fylgjendum sínum að svelta sig til dauða til að „hitta Jesú“.

Frá þessu greindi innaríkisráðherra landsins eftir að sautján lík fundust til viðbótar við þau sem áður höfðu verið grafin upp. Þrjátíu og fjórum var bjargað en 213 er saknað.

Paul Mackenzie Nthenge, leiðtogi Good News International-kirkjunnar, er grunaður um að hafa lokkað fylgjendur sína að búgarðinum nærri strandbænum Malindi. Þar er hann sagður hafa skipað þeim að svelta sig og grafið þá síðan í grunnum gröfum á landareigninni.

Nthenge var handtekinn fyrr í mánuðinum og situr í gæsluvarðhaldi. Athygli vekur að hann hefur verið handtekinn tvisvar áður, árið 2019 og í mars síðastliðnum, þá í tengslum við dauðsföll barna.

Innanríkisráðherrann Kithure Kindiki sagði að umfang aðgerða á búgarðinum væri nú meira en í upphafi en markmiðið væri að freista þess að finna og bjarga eins mörgum og mögulegt væri. Þá er unnið að rannsókn á öðrum sértrúasöfnuði í landinu.

Kindiki sagði mögulegt að harmleikurinn í Malindi væri aðeins toppurinn á ísjakanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×