Fótbolti

Barcelona búið að redda sér 226 milljörðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna ekki mörkum á Spotify Camp Nou á næsta tímabili því völlurinn fer þá í gegnum enduruppbyggingu.
Leikmenn Barcelona fagna ekki mörkum á Spotify Camp Nou á næsta tímabili því völlurinn fer þá í gegnum enduruppbyggingu. Getty/ Alex Caparros

Slæm fjárhagsstaða Barcelona hefur verið mikið í fréttum undanfarna mánuði. Fyrst hafði félagið ekki efni á að semja við Lionel Messi, þá hefur gengið illa að fá keppnisleyfi fyrir leikmenn og skuldastaðan er mjög slæm.

Engu að síður hafa forráðamenn Barcelona nú gefið það út að þeir hafi náð að tryggja sér 1,5 milljarða evra frá ýmsum fjárfestum til að fjármagna enduruppbygginu Nývangs sem heitir nú Spotify Camp Nou.

Þetta gerir 226 milljarða í íslenskum krónum sem verður nú að teljast vera vel gert hjá félagi sem glímir við þessa miklu fjárhagserfiðleika.

Peningarnir koma frá fjárfestum úr öllum áttum en alls eru tuttugu sem taka þátt í þessum verkefni með Barcelona.

Félagið ætlar að endurnýja hinn fornfræga leikvang sinn og búa til stórglæsilegan leikvang sem tekur 99 þúsund manns í sæti.

Í leiðinni mun svæðið í kring vera tekið algjörlega í gegn en fyrirmyndin er örugglega nýjustu íþróttaleikvangarnir í Bandaríkjunum. Hverfið mun síðan gefa tækifæri til að efla innkomu félagsins til mikilla muna.

Félagið tók það líka sérstaklega fram í tilkynningu sinni að engar eignir félagsins hafi verið notaðar sem trygging og þá var heldur ekki tekið veð í mannvirkinu.

Félagið ætlar að greiða fjárfestunum til baka á fimm, sjö, níu, tuttugu og 24 árum og hefur náð samkomulagi um sveigjanlegt uppgjör. Félagið mun byrja að greiða fjárfestunum til baka um leið og framkvæmdunum við leikvanginn lýkur.

Það kom fram að meðal fjárfestar voru fyrirtæki eins og Goldman Sachs, JP Morgan, JLL, Perez-Llorca, DLA Piper, Key Capital Partners, Legends og IPG 360.

Framkvæmdir eru hafnar en Barcelona mun spila heimaleiki sína á Ólympíuleikvanginum á meðan þær eru í gangi eða frá og með næsta tímabili. Sá völlur tekur þó bara fimmtíu þúsund manns og er í Montjuic hverfi borgarinnar.

Barcelona vonast til að komast aftur til baka á Nývang fyrir nóvember 2024 en félagið heldur þá upp á 125 ára afmælið. Vinna á svæðinu mun hins vegar vera í gangi til ársins 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×