Fótbolti

Sviptingar á toppnum: Dort­mund nýtti sér tap Bayern

Aron Guðmundsson skrifar
Vandræði Bayern Munchen hafa verið helst til of mikil að undanförnu fyrir stuðningsmenn félagsins
Vandræði Bayern Munchen hafa verið helst til of mikil að undanförnu fyrir stuðningsmenn félagsins Vísir/Getty

Það urðu heldur betur vendingar á toppi þýsku úr­vals­deildarinnar í knatt­spyrnu í dag og eftir úr­slit dagsins er það Borussia Dort­mund sem situr á toppi deildarinnar. Bayern Munchen mis­steig sig á úti­velli gegn Mainz.

Fyrir leiki dagsins sat Bayern Munchen á toppi þýsku úr­vals­deildarinnar. Eftir að hafa dottið út úr Meistara­deild Evrópu í miðri viku vonaðist Thomas Tuchel, svo til ný­ráðinn knatt­spyrnu­stjóri Bæjara, vafa­laust eftir því að lið sitt myndi rétta úr kútnum í dag en svo varð ekki raunin.

Bayern Munchen komst yfir í leik dagsins með marki frá Sadio Mané á 29.mínútu eftir stoð­sendingu frá Joao Cancelo og reyndist það eina mark fyrri hálf­leiksins en í þeim seinni hrundi leikur læri­sveina Tuchel.

Á níu mínútna kafla náðu leik­menn Mainz að skora þrjú mörk og snúa töpuðum leik yfir í sigur, hreint út sagt ó­trú­legar vendingar en svo fór að leikar enduðu með 3-1 sigri Mainz.

Fagmannleg frammistaða Dortmund

Leikur Mainz og Bayern fór fram í há­deginu í dag og lauk nokkrum klukku­stundum áður en leikur Dort­mund og Frankfurt hófst. Með sigri myndi Dort­mund hrifsa topp­sætið af Bayern og sú varð raunin.

Dort­mund vann afar þægi­legan 4-0 sigur á Frankfurt. Það var Jude Belling­ham sem skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og mörk frá Donyell Malen og Mats Hum­mels í kjöl­farið sáu til þess að Dort­mund fór með þriggja marka for­skot inn til búnings­her­bergja í hálf­leik.

Donyell Malen bætti síðan við öðru marki sínu og inn­siglaði 4-0 sigur heima­manna á 66.mínútu.

Donyell Malen fagnar marki í dagVisir/Getty

Sigur Dort­mund sér til þess að liðið situr með eins stigs for­ystu (60 stig) á Bayern Munchen (59 stig) á toppi þýsku úr­vals­deildarinnar þegar að bæði lið hafa leikið 29 leiki.

Í öðrum leikjum dagsins í þýsku úr­vals­deildinni ber þar helst að nefna að Wer­der Bremen bar sigur­orðið af Herthu Berlin á úti­velli 4-2, Köln hafði betur gegn Hof­fen­heim 3-1 og Wolfs­burg skoraði fimm mörk í 5-1 sigri á Bochum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×