Fótbolti

Inter mætir ná­grönnum sínum í AC Milan í undan­úr­slitum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lautaro Martínez skoraði og fagnaði innilega.
Lautaro Martínez skoraði og fagnaði innilega. Valerio Pennicino/Getty Images

Inter Milan stöðvaði Evrópuævintýri Benfica og tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 3-3 jafntefli á San Siro í kvöld. Inter vann fyrri leik liðanna í Portúgal 2-0 og einvígið því 5-3.

Það var ljóst fyrir leik kvöldsins að gestirnir ættu einkar erfitt verkefni fyrir höndum eftir 2-0 tap í Portúgal. Verkefnið varð nær ógerlegt þegar Nicolò Barella kom Inter yfir eftir tæpan stundarfjórðung. Hinn norski Fredrik Aursnes jafnaði metin fyrir gestina og staðan var 1-1 þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks.

Heimamenn gengu svo frá einvíginu í síðari hálfleik. Lautaro Martínez skoraði á 65. mínútu og Joaquin Correa kom Inter í 3-1 yfir þegar tólf mínútur lifðu leiks. Þarna var staðan í einvíginu 5-1 og Inter komið áfram.

Gestirnir löguðu þó stöðuna örlítið með því að skora tvö mörk undir lok leiks og jafna leikinn. Antonio Silva skoraði á 86. mínútu og Petar Musa jafnaði þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma, lokatölur á San Siro 3-3.

Inter mun mæta nágrönnum sínum í AC Milan í undanúrslitum. Þýðir það að liðin munu mætast alls fimm sinnum á leiktíðinni. Er það í fyrsta sinn í sögunni sem það gerist.


Tengdar fréttir

Sextán ára bið lokið

Í gærkvöldi komst AC Milan í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fyrsta skipti í 16 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×