Innlent

Not­endur geta talað ís­lensku við gervi­greindina

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hver veit hvað gervigreindin mun kokka upp á hinu ástkæra ylhýra fyrir gesti og gangandi á morgun? Kannski mun hún segja frá myndinni I, Robot sem Will Smith lék í 2004.
Hver veit hvað gervigreindin mun kokka upp á hinu ástkæra ylhýra fyrir gesti og gangandi á morgun? Kannski mun hún segja frá myndinni I, Robot sem Will Smith lék í 2004. Samsett/Kaochi Kamoshida

Gestir og gangandi geta rabbað við gervigreindarforritið Emblu á íslensku á opnu húsi í Eddu, Húsi íslenskunnar, á sumardaginn fyrsta á morgun. Í viku frá og með morgundeginum geta notendur Emblu síðan spjallað ókeypis við gervigreindina GPT-4.

Gervigreindar-Embla er nýjung í forritinu Emblu sem gerir notanda kleift að eiga samræður við risamállíkanið GPT-4 á íslensku. Embla er smáforrit á vegum hugbúnaðarfyrirtækisins Miðeindar sem hefur unnið að lausnum í máltækni og gervigreind á undanförnum árum.

Undanfarna mánuði hefur Miðeind verið í samstarfi við OpenAI um að sérþjálfa nýjasta risamállíkan OpenAI, GPT-4, fyrir íslensku. Afrakstur þess samstarfs má sjá á stórbættri íslenskukunnáttu risamállíkansins GPT-4 og vænta má enn betri niðurstaðna á næstu mánuðum.

Hér má sjá dæmi um fyrirspurn á íslensku til gervigreindarinnar.Miðeind

Á morgun stendur Miðeind síðan fyrir kynningu á gervigreindar-Emblu á opnu húsi í Eddu, Húsi íslenskunnar, að Arngrímsgötu 5. 

Í kjölfarið verður notendum Emblu boðið að spjalla ókeypis við gervigreindina GPT-4 á íslensku. Virknin verður opin til prófunar í eina viku og verður hverjum notanda Emblu boðið upp á fimmtán fyrirspurnir á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×