Fótbolti

Kane og Mourin­ho á óska­lista PSG

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gætu þessir tveir verið á leið til Parísar?
Gætu þessir tveir verið á leið til Parísar? EPA-EFE/Lynne Cameron

Það stefnir í töluverðar breytingar hjá Frakklandsmeisturum París Saint-Germain í sumar. Lionel Messi er talinn vera á leið heim til Katalóníu en í hans stað vilja forráðamenn PSG fá enska framherjann Harry Kane. Þá er talið að José Mourinho gæti verið næsti þjálfari liðsins.

Líkt og svo oft áður er París Saint-Germain í tilvistarkreppu. Draumar eigenda liðsins um að vinna Meistaradeild Evrópu eru enn aðeins draumar en liðið er hvergi sjáanlegt í 8-liða úrslitum keppninnar. Fyrir núverandi tímabil var ákveðið að það yrði minna um glamúr og meira um heilsteyptar frammistöður. Sú varð ekki raunin.

Nú virðist sem Lionel Messi, ofurstjarnan sem PSG lagði allt kapp á að fá í sínar raðir, sé á leið frá félaginu eftir tveggja ára dvöl. Hvað verður svo um Kylian Mbappé veit enginn en eitt er þó ljóst, forráðamenn PSG vilja fá Harry Kane til að leiða framlínuna.

Framherjinn mun aðeins eiga eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenam Hotspur þegar félagaskiptaglugginn opnar í sumar og stefnir PSG á að lokka hann yfir Ermasundið og til Frakklands.

Hvort það takist er svo annað mál en Kane á enn eftir að vinna titil á ferli sínum og það er í raun gefið að hjá PSG muni hann að lágmarki verða Frakklandsmeistari einu sinni. Þrátt fyrir að Tottenham hafi ekki átt sitt besta tímabil hefur Kane skorað 23 mörk í 31 deildarleik en hann skoraði þó aðeins 1 mark í 8 leikjum í Meistaradeildinni.

Einnig er talið að tími hins 56 ára gamla Christopher Galtier sem þjálfara PSG sé liðinn. Hann tók við liðinu á síðasta ári en árangurinn er ekki talinn nægilega góður að mati forráðamanna liðsins. Renna þeir hýru auga til José Mourinho sem hefur gert kraftaverk með Roma á Ítalíu. Einnig er árangur José í Evrópu óumdeilanlegur þó það sé langt síðan hann vann Meistaradeildina.

Ofan á það þá virðast hann og Kane ná vel saman. Hver veit nema PSG leggi allt í sölurnar til að fá þá félaga í pakkadíl þegar félagaskiptaglugginn opnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×