Ítölsku meistararnir tryggðu sér sæti í undanúrslitum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
AC Milan er á leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu.
AC Milan er á leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu. Matteo Ciambelli/DeFodi Images via Getty Images

Ítalíumeistarar AC Milan eru á leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 1-1 jafntefli gegn verðandi Ítalíumeisturum Napoli í kvöld.

Milan vann fyrri leik liðanna 1-0 og liðinu nægði því jafntefli í kvöld til að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Gestirnir frá Mílanó fengu þó tækifæri til að taka forystuna um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Mario Rui var dæmdur brotlegur innan vítateigs. Olivier Giroud fór á punktinn fyrir gestina, en Alex Meret sá við honum í marki Napoli.

Giroud bætti þó fyrir mistök sín þegar lítið var eftir af fyrri hálfleik og sá til þess að gestirnir fóru með 1-0 forystu inn í hálfleikshléið.

Heimamenn í Napoli fengu þó tækifæri til að hleypa spennu í einvígið þegar Fikayo Tomori handlék knöttinn innan vítateigs þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Khvicha Kvaratskhelia tók spyrnuna, en Mike Maignan var vandanum vaxinn og varði frá honum.

Victor Osimhen jafnaði hins vegar metin fyrir Napoli á þriðju mínútu uppbótartíma, en þá var það orðið of seint og niðurstaðan varð 1-1 jafntefli. AC Milan er því á leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir samanlagðan 2-1 sigur, en Napoli situr eftir með sárt ennið.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira