Lífið

Ungur strákur skipti á giftingarhring fyrir Pokémon

Samúel Karl Ólason skrifar
Páll Ágúst Ólafsson, sonur hans Ólafur Páll og hringurinn sem vantar eiganda.
Páll Ágúst Ólafsson, sonur hans Ólafur Páll og hringurinn sem vantar eiganda.

Ungur drengur kom heim úr Melaskóla í gær með giftingarhring sem hann hafði fengið í skiptum fyrir Pokémon-spil. Foreldrar drengsins leita nú að eiganda hringsins en fjölmargir hafa haft samband og forvitnast um hvort um þeirra hring sé að ræða.

„Það eru fáránlega margir búnir að hringja og senda skilaboð,“ segir Páll Ágúst Ólafsson, faðir drengsins, í samtali við Vísi. Páll segir að líklega hafi um fimmtíu manns haft samband.

„Ég hefði ekki trúað því að svo margir hefðu týnt giftingarhring,“ segir Páll. Sonur hans þekkir ekki drenginn sem lét hann fá hringinn og því ákvað Páll að leita til internetsins til að finna eiganda hringsins.

Í færslu sem Páll birti í Vesturbæjarsíðunni á Facebook í gær segir hann að í hringum sé skammstöfun sem eigandinn viti líklegast hver sé og að líklega sé um karlmannshring að ræða.

„Ég efast ekki um að það er einhver þarna úti sem saknar hans mjög mikið og því vona ég innilega að internetið leysi þetta fyrir okkur,“ skrifaði Páll Ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×