Fótbolti

Mané fékk bann og sekt fyrir kjaftshöggið

Sindri Sverrisson skrifar
Upp úr sauð á milli Sadio Mané og Leroy Sané í Manchester á þriðjudagskvöld.
Upp úr sauð á milli Sadio Mané og Leroy Sané í Manchester á þriðjudagskvöld. Getty/Simon Stacpoole

Forráðamenn Bayern München hafa ákveðið að setja Sadio Mané í bann og sekta hann fyrir að slá liðsfélaga sinn, Leroy Sané, eftir tapið gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu í fyrrakvöld.

Mané og Sané rifust undir lok leiksins og héldu áfram eftir leik, alveg inn í búningsklefa þar sem Mané sló svo Sané þannig að vör sprakk hjá þeim síðarnefnda. Liðsfélagar þeirra stigu þá á milli þeirra.

Mané verður af þessum sökum ekki í leikmannahópi Bayern á laugardaginn þegar liðið leikur gegn Hoffenheim í þýsku 1. deildinni. Ekki kemur fram í yfirlýsingu Bayern hve háa sekt hann hlýtur en miðað við yfirlýsinguna ætti Mané að vera í hópnum þegar Bayern tekur á móti City í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar, í næstu viku.

Þýskir miðlar greindu frá því að Mané hafi þurft að biðjast afsökunar fyrir framan liðsfélaga sína á æfingu Bayern í dag. Forráðamenn Bayern funduðu um málið í gær og samkvæmt Sky var þar rætt um hvernig Mané yrði refsað og hvort málið yrði mögulega til þess að Bayern myndi losa sig við Mané í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×