Fótbolti

Sáttafundur í morgun en Mané gæti fengið þunga refsingu

Sindri Sverrisson skrifar
Sadio Mané og Leroy Sané rifust úti á velli undir lok leiks gegn Manchester City, og deila þeirra endaði með kjaftshöggi inni í búningsklefa.
Sadio Mané og Leroy Sané rifust úti á velli undir lok leiks gegn Manchester City, og deila þeirra endaði með kjaftshöggi inni í búningsklefa. Getty/Simon Stacpoole

Leroy Sané og Sadio Mané voru báðir mættir á æfingu Bayern München í morgun eftir að upp úr sauð þeirra á milli í Manchester í fyrrakvöld, eftir 3-0 tapið gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu í fótbolta.

Samkvæmt Bild og Sky í Þýskalandi þá sló Mané þannig til Sané að sá síðarnefndi blóðgaðist á vör, eftir rifrildi þeirra í búningsklefanum eftir leik. Liðsfélagar þeirra þurftu að stíga á milli en deila þeirra hófst inni á vellinum undir lok leiks þar sem þeir rifust um hvernig sendingu Sané hefði átt að koma á Mané.

Bild segir að Mané hafi verið ósáttur við hvernig Sané svaraði honum og látið hann vita af því eftir að lokaflautið gall, og rifrildið hafi svo endað með fyrrgreindum afleiðingum. Sané gætti þess svo að fela neðri vörina þegar hann lenti í München í gær.

Leikmennirnir voru báðir viðstaddir sáttafund í morgun en Sky í Þýskalandi segir að Mané geti mögulega átt von á þungri refsingu.

Mané gæti fengið sekt eða bann vegna málsins en Torben Hoffmann, fréttamaður Sky, segir að Bayern geti ekki látið sekt nægja. Málið sé of alvarlegt til þess og að sýna þurfi fordæmi.

Mané kom til Bayern síðasta sumar eftir að hafa farið á kostum með Liverpool um árabil en þessi 31 árs gamli sóknarmaður hefur átt afar erfitt uppdráttar hjá Bayern. Hoffmann telur að Mané muni yfirgefa Bayern í sumar og segir marga leikmenn þýsku meistaranna á sama máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×