Handbolti

„Þyrfti eitt­hvað stór­kost­legt að gerast ef þær eiga að fara að tapa rimmu“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
ÍBV verður Íslandsmeistari kvenna í handbolta samkvæmt Hrafnhildi Ósk Skúladóttur.
ÍBV verður Íslandsmeistari kvenna í handbolta samkvæmt Hrafnhildi Ósk Skúladóttur. Vísir/Diego

Nöfnurnar Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir voru gestir í síðasta hlaðvarpsþtti Kvennakastsins þar sem meðal annars var velt fyrir sér hvaða lið myndi fagna Íslandsmeistaratitlinum í Olís-deild kvenna í ár.

Sigurlaug Rúnarsdóttir, eða Silla eins og hún er yfirleitt kölluð, spurði landsliðskonuna fyrrverandi, Hrafnhildi Skúladóttur, hvaða lið hún teldi að myndi hampa þeim stóra.

„Hanna,“ sagði Hrafnhildur án þess að hika og átti þá við Hrafnhildi Hönnu og stöllur hennar í ÍBV.

„Satt að segja þá sé ég þær aldrei tapa rimmu. Þær gætu alveg tapað leik, en ég yrði rosalega hissa og það þyrfti eitthvað stórkostlegt að gerast ef að þær eiga að fara að tapa rimmu. Þær líta bara langbest út núna og mér finnst þær bara langlíklegastar. Það er allt með þeim einhvern veginn núna.“

„Maður þekkir þetta. Þegar það kemur einhver svona andi yfir liðið,“ sagði Hrafnhildur.

ÍBV hefur verið langbesta lið Olís-deildar kvenna eftir áramót og liðið er búið að fagna bæði bikar- og deildarmeistaratitli. Hrafnhildur er því alls ekki eini handboltasérfræðingur landsins sem telur að ÍBV muni fagna þeim stóra, en Einar Jónsson, þjálfari karlaliðs Fram og verðandi þjálfari kvennaliðsins, sagði svipaða hluti í öðrum þætti af Kvennakastinu á dögunum.

Þáttinn í heild sinni má finna í spilaranum hér fyrir neðan, en umræðan um verðandi meistara hefst eftir um það bil 50 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×