Erlent

Þrjár ungar stúlkur á­kærðar fyrir líkams­­­á­rás og frelsis­­­sviptingu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Lögreglan rannsakar málið.
Lögreglan rannsakar málið. Getty Images

Þrjár stúlkur, tólf, þrettán og fjórtán ára, hafa verið ákærðar fyrir að hafa tælt þrettán ára stelpu á ótilgreint heimili í Ástralíu, svipt hana frelsi sínu og beitt hana ofbeldi. Athæfið mun hafa verið tekið upp á myndband.

Lögreglan í Queensland í Ástralíu greinir frá því að brotaþoli hafi þegið heimboð stúlknanna þriggja hinn 11. mars síðastliðinn. Þegar þangað hafi verið komið hafi þær haldið stúlkunni gegn vilja sínum, ráðist á hana og skorið með hnífi. Árásin hafi staðið yfir í nokkrar klukkustundir.

Myndbönd fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem stúlkan sést standa slösuð, ein út í horni og illa klædd. Á meðan sjást árásarmennirnir hóta henni líkamsmeiðingum. Skólayfirvöld í Ástralíu hafa beðið foreldra um að ræða við börnin sín vegna málsins, og myndbandsins sem fór í dreifingu.

Lögregla ákærði stúlkurnar þrjár tveimur dögum eftir árásina. Sú elsta, fjórtán ára, er sem stendur í gæsluvarðhaldi. Mál stúlknanna verður tekið fyrir af sérstökum unglingadómstól síðar í mánuðinum. Guardian greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×