Innlent

Engir kyn­segin ein­staklingar af­plánað í fangelsum landsins

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Allir fangar hefja afplánun á Hólmsheiði, óháð kyni.
Allir fangar hefja afplánun á Hólmsheiði, óháð kyni. Vísir/Vilhelm

Engir kynsegin einstaklingar hafa afplánað refsingu í fangelsi á Íslandi, samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun. Vistunaráætlanir eru unnar með hagsmuni hvers einstaklings að leiðarljósi, segir í svörum dómsmálaráðherra við fyrirspurn.

Það var Indriði Ingi Stefánsson, varaþingmaður Pírata, sem lagði fyrirspurnina fyrir dómsmálaráðherra.

Í svörum ráðherra segir að engir sérstakir verkferlar hafi verið útbúnir er varða móttöku kynsegin einstaklinga í fangelsum landsins „þar sem ekki hefur þótt unnt að setja eina reglu sem getur átt við um alla kynsegin einstaklinga“.

Hins vegar hafi orðinu „kynvitund“ verið bætt inn í ákvæði í lögum um fullnustu refsinga, þar sem fjallað er um ákvörðun um vistunarstað, samfara því að lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi. Því yrði litið til kynvitundar þegar ákvörðun um vistunarstað er tekin.

„Þá var einnig gerð breyting á 2. mgr. 43. gr. laganna, sem fjallar um samneyti kynja í fangelsum landsins, þannig að í stað orðsins „gagnstæðu“ kom orðið „öðru“, svo talað er um annað kyn í staðinn fyrir gagnstætt kyn í ákvæðinu.“

Allir fangar hefja afplánun á Hólmsheiði, óháð kyni, en í kjölfarið er tekin ákvörðun um vistun og við þá ákvörðun er tekið mið af kynvitund fangans. 

„Ef til þess kemur að kynsegin einstaklingur hefji afplánun fangelsisrefsingar mun Fangelsismálastofnun útbúa vistunaráætlun með hagsmuni þess einstaklings að leiðarljósi, svo sem hvar viðkomandi skuli vistaður,“ segir í svörum ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×