Innlent

Um­fangs­mikið út­kall vegna manns sem fannst svo á röltinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maðurinn sást krjúpa á skeri við strandlengjuna í Garðabæ.
Maðurinn sást krjúpa á skeri við strandlengjuna í Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kallaði út þyrlu Landhelgisgæslunnar, sérsveit ríkislögreglustjóra og kafarahóp Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna manns sem virtist hafa horfið í sjóinn eftir að hafa gengið út á sker.

Lögreglu barst tilkynning um manninn, sem var sagður krjúpa á skeri við strandlengjuna í Garðabæ. Sjónvarvottar sögðu að maðurinn hefði staðið á skerinu, beygt sig niður og horfið. 

Skóför sáust í snjó sem lá milli strandar og skers en þau bentu ekki til þess að gengið hefði verið til baka frá skerinu. 

Stuttu eftir að kallað var á aðstoð Gæslunnar, sérsveitarinnar og slökkviliðsins rákust lögreglumenn hins vegar á einstakling á rölti við ströndina, sem reyndist vera sá sem leitað var að. 

Sagðist hann ekki hafa farið í sjóinn, heldur kropið niður til að taka myndir af ísnum sem hafði myndast á skerinu.

Aðstoðin var þá snarlega afturkölluð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×