Fótbolti

Mbappe: Leikurinn í kvöld mun ekki ráða framtíð minni hjá PSG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kylian Mbappe fékk bæði bikar og flugeldasýningu þegar hann mætti markamet félagsins í síðasta leik Paris Saint Germain. Nú vonast hann eftir annars konar flugeldasýningu.
Kylian Mbappe fékk bæði bikar og flugeldasýningu þegar hann mætti markamet félagsins í síðasta leik Paris Saint Germain. Nú vonast hann eftir annars konar flugeldasýningu. Getty/Jean Catuffe

Framtíð Kylian Mbappe hjá Paris Saint-Germain veltur ekki á útkomu leiks liðsins á móti Bayern München í Meistaradeildinni í kvöld ef marka má viðtal við kappann.

Bayern vann fyrri leikinn 1-0 í Frakklandi og er því í góðum málum fyrir leik kvöldsins sem verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

„Ef ég tengdi framtíðarplön mín við Meistaradeildina, með fullri virðingu fyrir félaginu, þá hefði ég verið farinn fyrir löngu,“ sagði Kylian Mbappe.

Mbappe varð markahæsti leikmaðurinn í sögu Paris Saint-Germain um síðustu helgi þegar hann skoraði sitt 201. mark fyrir félagið. Hann er samt bara 24 ára gamall.

„Ég tel ekki að þessu leikur muni hafa einhver áhrif á framtíð mína hjá PSG. Ég er hér og ég er mjög ánægður að vera hér. Ég er ekki að hugsa um neitt annað en að ná árangri með PSG,“ sagði Mbappe.

PSG verður án Neymar í leiknum en hann þurfti að fara í aðgerð á ökkla og missir af restinni af tímabilinu.

Mbappe verður aftur á móti með Lionel Messi með sér og það ætti að boða gott.

Útsendingin frá Meistaradeildinni hefst klukkan 19.35 á Stöð 2 Sport með Upphitun en útsending frá leik Bayern og PSG hefst klukkan 19.50.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×