Sport

Anníe Mist þjáðist við hlið Söru og Sólveigar í 23.2

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir ræðir æfingu 23.2 eftir að hún kláraði hana.
Anníe Mist Þórisdóttir ræðir æfingu 23.2 eftir að hún kláraði hana. Skjámynd/Youtube

Þrjár af fremstu CrossFit konum Íslands gerðu saman aðra æfingu opna hluta undankeppni heimsleikanna í CrossFit, æfingu 23.2.

Það er gott að sjá stórstjörnur okkar vinna saman enda viljum við sjá sem flesta Íslendinga tryggja sér inn á heimsleikana í CrossFit í haust. Opni hluti undankeppni heimsleikanna er nú í fullum gangi og CrossFit fólk kepptist við það um helgina að komast gegnum æfinguna í viku númer tvö.

Anníe Mist Þórisdóttir fékk þær Söru Sigmundsdóttur og Sólveigu Sigurðardóttur til að gera með sér 23.2. æfinguna. Sólveig tók einmitt þá ákvörðun að vera heima á þessu tímabili og er að æfa með Anníe í CrossFit Reykjavík.

Sólveig var sú eina af þeim sem komst inn á heimsleikana á síðasta ári, það er í einstaklingskeppninni því Anníe tók þátt í liðakeppninni á síðasta tímabili. Sara er að koma til baka eftir tvö erfið meiðslaár.

Anníe Mist sýndi frá æfingunni á Youtube síðu sinni og talaði um hana bæði fyrir og eftir átökin.

„Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið stressuð fyrir þessa 23.2 æfingu því ég veit að þetta verður sárt,“ sagði Anníe Mist Þórisdóttir áður en hún gerði æfinguna.

„Ég veit það þetta mun snúast um þjáningu og að halda haus í gegnum hana alla,“ sagði Anníe Mist. Hún sagði líka frá því að Freyja Mist litla hafi aðeins truflað undirbúninginn.

„Freyja fékk martröð í nótt, litla stelpan. Við vorum því vakandi saman í klukkutíma í kringum þrjú í nótt. Hún var fersk í morgun en mamman ekki alveg eins hress,“ sagði Anníe.

Hún sýndi síðan sig gera æfinguna með þeim Söru og Sólveigu.

„23.2. Þetta er einu sinni og ekki aftur. Þetta var samt skemmtilegra en ég bjóst við,“ sagði Anníe.

„Það var samt mjög erfitt að hafa Söru við hliðina á mér því hún byrjaði mun hraðar í Burpee æfingunnum en ég náði henni síðan alltaf á hlaupunum,“ sagði Anníe.

„Þið sem þekkið mig vitið að ég er íþróttamaður sem byrjar af miklum krafti í byrjun og vonast síðan eftir því að halda út. Ég vildi svo mikið æfa stöðugleikann í þessari æfingu. Af því að það mér finnst að mér hafi tekist það þá er ég mjög stolt af mér í þessari æfingu,“ sagði Anníe.

„Ég og Katrín Tanja erum algjörar andstæður í þessu. Hún byrjar mjög klókt og kemur síðan öflug í lokin. Ég byrja af miklum krafti en reyni síðan að halda út,“ sagði Anníe og fór síðan aðeins yfir lyftingahlutann þar sem hún var ekki nógu sátt með sig.

Hér fyrir neðan má sjá æfinguna og það sem Anníe Mist hafði að segja um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×