Innlent

Mun láta af formennsku á næsta fundi

Bjarki Sigurðsson skrifar
Björn Snæbjörnsson hefur setið í stjórn Einingar-Iðju og Verkalýðsfélagsins Eining í 41 ár.
Björn Snæbjörnsson hefur setið í stjórn Einingar-Iðju og Verkalýðsfélagsins Eining í 41 ár. Eining-Iðja

Björn Snæbjörnsson mun láta af formennsku hjá stéttarfélaginu Einingu-Iðju á næsta aðalfundi félagsins. Hann hefur gegnt embætti formanns í 24 ár. Anna Júlíusdóttir tekur við formennsku félagsins. 

Björn Snæbjörnsson hefur setið í stjórn Einingar-Iðju síðan árið 1982. Þá var hann meðstjórnandi og hét félagið þá Verkalýðsfélagið Eining. Árið 1986 varð hann varaformaður félagsins og tók við sem formaður árið 1992.

Árið 1999 varð félagið að Einingu-Iðju þegar gengið var frá samruna Einingar og Iðju, félags verksmiðjufólks á Akureyri. Hefur Björn því verið formaður félagsins frá upphafi. 

Nýr formaður félagsins verður Anna Júlíusdóttir sem nú gegnir starfi varaformanns. Hún hefur setið í stjórn félagsins síðan árið 2001 og gegnt embætti varaformanns síðan árið 2012.

„Ég mun leggja mig fram um að sinna hlutverki mínu eins vel og ég get og hlakka til að vinna áfram með félagsmönnum ásamt góðum hópi stjórnar og starfsfólks að okkar mikilvægu málum,“ er haft eftir Önnu í tilkynningu á vef Einingar-Iðju. 

Næsti aðalfundur félagsins fer fram eftir tvo mánuði, þann 24. apríl næstkomandi, í Menningarhúsinu Hofi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×