Skoðun

Klúður!

Guðmundur Árni Stefánsson skrifar

Klúður í Hafnarfirði. Enn og aftur. Það var vitlaust lagt á í Hafnarfirði. Það þurfti að laga. Draga þurfti úr hækkun fasteignaskatts afturvirkt. Og var gert í morgun, 23.febrúar í bæjarráði.

Forsagan er að meirihlutaflokkar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykktu gríðarlega hækkun á fasteignasköttum í desember og tóku inn að fullu fasteignabóluna sem nýtt fasteignamat endurspeglaði. Jafnaðarmenn vöruðu við þessu og lögðu til að íbúðareigendur í Firðinum yrðu varðir fyrir þessar fasteignabólu í álagningu fasteignaskatta. Á það var ekki hlustað.

Og helmingaskiptaflokkarnir skelltu við skollaeyrum. Ofurhækkun skyldi það vera. Þegar álagning lá svo fyrir og íbúðareigendur fóru að fá álagningarseðlana senda, þá kom einnig í ljós að hækkunin var enn meiri samtals í fasteignagjöldum, en ráð var fyrir gert. Margir bæjarbúar bentu á þetta misræmi. Þess vegna spurðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar fyrir um málið og lögðu fram fyrirspurnir í bæjarráði þess efnis fyrir tæpum þremur vikum. Svarið kom síðan í morgun, fimmtudag 23.febrúar, á bæjarráðsfundi. Þá kom í ljós að meðaltalshækkun á fasteignagjöldum sem átti að vera 9,5%, eða skv. verðlagsþróun, reyndist 15,8%.

Hringavitleysa

Meirihlutaflokkarnir brugðust þó við þessari staðreynd sem jafnaðarmenn drógu fram og samþykktu með atkvæðum okkar jafnaðarmanna að færa niður álagningarprósentuna í fasteignaskatti til að mæta þessari ofurálagningu. Þeir hefðu betur hlustað á jafnaðarmenn í desember síðastliðnum.

Þetta nýjasta klúður meirihlutans kemur ofan á einbeittan vilja þeirra til að hækka álögur á bæjarbúa í fasteignaskatti - byggðan á bóluhækkun. Hækkun í mati á verðlagningu fasteigna, sem er að ganga til baka við kólnun fasteignamarkaðarins.

Jafnaðarmenn vilja hófsemd og réttlæti í skattamálum. Gagnsæi og sanngirni, enda þurfa bæjarfélög réttmætar skatttekjur til að standa undir betri velferðarþjónustu. Þessi hringavitleysa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á skatti á fasteignir á ekkert skylt við það. Þetta er einfaldlega klúður stjórnmálamanna sem hafa enga sýn, enda hækka skuldir bæjarins dag frá degi og velferðarþjónusta í fjárþörf. Það þarf að stokka upp spilin í Hafnarfirði.

Höfundur er bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar - Jafnaðarflokks Íslands í Hafnarfirði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×