Innlent

Þrír í á­fram­haldandi gæslu­varð­haldi: Lögðu hald á tuttugu milljónir króna

Árni Sæberg skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað málið undanfarnar vikur.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rannsakað málið undanfarnar vikur. Vísir/Vilhelm

Fyrir helgi voru þrír karlmenn úrskurðaðir í áframhaldandi fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar sem snýr að framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna. Ekki var farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir einum sem handtekinn var í tengslum við málið.

Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir að í tengslum við málið hafi verið lagt hald á bæði fjármuni og fíkniefni við húsleitir í umdæminu, eða tuttugu milljóna króna bankainnistæður, sjö kíló af amfetamíni og fjörutíu kíló af marijúana, auk annarra fíkniefna sem og frammistöðubætandi efna.

Í síðustu viku var greint frá því að fimm hefðu verið handteknir í tengslum við málið og fjórir úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki hafi verið farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir einum mannanna.

Þá segir að rannsókn málsins hafi staðið yfir undanfarnar vikur og að meðal annars sé til skoðunar hvort einhverjir mannanna hafi komið gagngert til Íslands þessara erinda, það er að standa að framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×