Fótbolti

Búist við katörsku tilboði í United

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Fjárfestar hafa frest þar til klukkan tíu á föstudagsmorgun til að skila inn tilboðum í Manchester United.
Fjárfestar hafa frest þar til klukkan tíu á föstudagsmorgun til að skila inn tilboðum í Manchester United. Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Búist er við því að katarskir fjárfestar tengdir konungsfjölskyldunni muni leggja fram tilboð í enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United á morgun.

Frá þessu er greint á Sky Sports, meðal annarra miðla, en þar er einnig sagt frá því að þeir katörsku verði ekki þeir einu sem muni leggja fram tilboð þegar skilafrestur rennur út á morgun. Einnig er búist við tilboðum frá Sádí-Arabíu, Bandaríkjunum og frá Sir Jim Ratcliffe, ríkasta manni Bretlands.

Upphaflegt tilboð þeirra sem ætla sér að reyna að kaupa félagið þurfa að berast fyrir klukkan tíu í fyrramálið, föstudag.

Núverandi eigendur Manchester United, Glazer-fjölskyldan, vill fá í það minnsta fimm milljarða punda fyrir félagið, en það samsvarar rúmlega 872 milljörðum króna. Samkvæmt heimildarmönnum Sky Sports mun þó enginn af þeim sem hafa sýnt áhuga bjóða svo hátt til að byrja með.

Þrátt fyrir fimm milljarða punda verðmiðann segja þessir sömu heimildarmenn að katörsku fjárfestarnir séu staðráðnir í að yfirborga ekki. Katarska tilboðið er sagt hafa fengið stuðning frá Emírnum í Katar, Tamim bin Hamad al-Thani, en hann er stuðningsmaður félagsins.

Þá er búist við því að tilboðin frá Katar og Sádí-Arabíu yrðu einu tvö tilboðin sem þyrftu ekki að treysta á lánsfé til að fjármagna kaupin á Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×