Skoðun

Eru grænmetisolíur eitur?

Guðrún Nanna Egilsdóttir skrifar

Grænmetisolíur hafa verið töluvert áberandi í umræðunni á samfélagsmiðlum að undanförnu og virðist algengt að halda fram skaðsemi þeirra.

En eru grænmetisolíur virkilega eitur? Eru þær eins hættulegar og vinsælt hefur verið að halda fram? Eða eru þær mögulega kannski bara hollar fyrir okkur eftir allt saman?

Grænmetisolíur eru framleiddar með því að pressa olíu úr fræjum eða plöntum eins og repjufræjum, sólblómafræjum, hörfræjum, sojabaunum og ólívum. Þær innihalda mikilvæga fitu og fituleysanleg vítamín eins og A, D, E og K vítamín og eru þar að auki ríkar af einómettuðum fitusýrum. Til eru tvær nauðsynlegar fitusýrur fyrir mannslíkamann sem eru; α-línólensýra (ALA), betur þekkt sem omega-3 og línólsýra (LA) eða omega-6. Mikilvægasta fæðuuppspretta ALA er úr grænmetisolíum eða nánar tiltekið repjuolíu sem að er fita unnin úr repjufræjum. Þá hafa hörfræolíur og camelina olíur þar að auki hátt innihald af ALA ásamt sojaolíu, hampolíu og valhnetum.

Íslenskar næringarráðleggingar byggjast á norrænum næringarráðleggingum og samkvæmt þeim er mælt með inntöku grænmetisolía vegna heilsufarslegs ávinnings þeirra. Þá tengjast repjuolíur og ólívuolíur til að mynda minni hættu á flestum langvinnum sjúkdómum. Hins vegar innihalda pálma og kókosolíur hátt magn mettaðra fitusýra. Að skipta mettuðum fitusýrum að hluta út fyrir fjölómettaðar fitusýrur og einómettaðar fitusýrur (t.d. ólívu- eða repjuolíu) getur verið áhrifarík leið til að lækka styrk LDL-kólesteróls í blóði.

Í norrænum næringarráðleggingum er auk þess talað um tengsl á milli fæðumynstra og hættu á langvinnum sjúkdómum eins og hjarta- og æðasjúkdómum og sumum krabbameinum. Mataræði ríkt af grænmeti, baunum, belgjurtum, ávextum og berjum, hnetum og fræjum, heilkorni, fisk, fitusnauðum mjólkurvörum og jurtaolíum tengist minni hættu á flestum langvinnum sjúkdómum samanborið við hefðbundið mataræði af vestrænni gerð.

Það er því ljóst að ef grænmetisolíur eru kannaðar nánar benda vísindin til þess að ekki þurfi að óttast þær heldur geta þær þvert á móti stuðlað að bættri heilsu.

Höfundur er meistaranemi í næringarfræði.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Um dánaraðstoð

Steinunn Þórðardóttir,Oddur Steinarsson,Thelma Kristinsdóttir,Katrín Ragna Kemp,Magdalena Ásgeirsdóttir,Margrét Ólafía Tómasdóttir,Ragnar Freyr Ingvarsson,Teitur Ari Theodórsson,Theódór Skúli Sigurðsson skrifar

Skoðun

Hún

Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×