Fótbolti

Sjáðu hvernig táningurinn kláraði Real Madrid

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gavi fagnar hér titlinum með félögum sínum í Barcelona liðinu.
Gavi fagnar hér titlinum með félögum sínum í Barcelona liðinu. Getty/Yasser Bakhsh

Hinn átján ára gamli Pablo Martín Páez Gavira, eða Gavi eins og hann er oftast kallaður, átti sannkallaðan stórleik þegar Barcelona vann í gær sinn fyrsta titil undir stjórn Xavi.

Barcelona þurfti vítakeppni til að komast í úrslitaleik spænska Ofurbikarsins en það var enginn vafi á því hvort liðið var betri í honum.

Gavi, sem er fæddur í ágúst 2004, skoraði fyrsta mark Barcelona í 3-1 sigri og lagði síðan upp hin tvö mörkin fyrir þá Robert Lewandowski og Pedri.

Gavi er á sínu öðru tímabili með aðalliði Barcelona en hann fékk sitt fyrsta tækifæri undir stjórn Ronald Koeman í ágúst 2021.

Gavi var strax líkt við Xavi og hann hefur líka orðið fastamaður í Barca liðinu eftir að Xavi tók við af Koeman.

Það var því kannski við hæfi að það skulu einmitt hafa verið Gavi sem öðrum fremur stuðlaði að því að Barcelona vann fyrsta titilinn undir stjórn Xavi í gær.

Í fyrsta markinu sýndi Gavi mikla yfirvegun fyrir framan Thibaut Courtois í marki Real Madrid eftir að hafa fengið flotta sendingu frá Lewandowski.

Gavi þakkaði fyrir þá sendingu með því að spila Lewandowski frían fyrir opnu marki og Pólverjinn skoraði auðveldlega.

Svipaða sögu var að segja í þriðja markinu en þá sendi Pedri boltann í autt markið eftir frábæran undirbúning Gavi. Það má sjá öll þessi þrjú mörk hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×