Innlent

Faldi efnin í höfuð­púða, bak­poka og úlpu í far­angrinum

Atli Ísleifsson skrifar
Úr dómsal í húsakynnum Héraðsdóms Reykjaness.
Úr dómsal í húsakynnum Héraðsdóms Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt svissneskan karlmann í tíu mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa reynt að smygla tæpu 1,4 kílóum af kókaíni til landsins.

Maðurinn flutti efnin þegar hann kom með flugi frá Barcelona á Spáni til Keflavíkur þann 9. nóvember síðastliðinn.

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi falið efnin í höfuðpúða, bakpoka og úlpu í farangri sínum. Hafði fíkniefnunum verið skeytt saman við bómul og filtefni höfuðpúðans og svamplög í bakpoka og úlpu. Styrkleiki efnanna var 30 til 56 prósent.

Maðurinn játaði sök í málinu en hann hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi hér á landi svo kunnugt sé.

Í dómi segir að ekkert komi fram um að maðurinn hafi verið eigandi efnanna né tekið þátt í skipulagningu á kaupum og innflutningi þeirra til Íslands með öðrum hætti en þeim að samþykkja að flytja efnin til landsins og þá væntanlega gegn greiðslu.

Dómari mat hæfilega refsingu vera tíu mánaða fangelsi, en til frádráttar kemur gæsluvarðhald sem maðurinn sætti frá komunni til landsins.

Manninum var jafnframt gert að greiða máls- og sakarkostnað, samtals um 1,4 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×