Sport

Leikur Buffalo og Cincinnati verður aldrei kláraður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðbrögð leikmanna Buffalo Bills eftir að liðsfélagi þeirra Damar Hamlin hné niður á vellinum.
Viðbrögð leikmanna Buffalo Bills eftir að liðsfélagi þeirra Damar Hamlin hné niður á vellinum. AP/Joshua A. Bickel

NFL-deildin hefur tekið þá ákvörðun að leikur Buffalo Bills og Cincinnati Bengals verði ekki kláraður. Það gæti haft áhrif á úrslitakeppnina.

Leikurinn var stöðvaður þegar Damar Hamlin hneig niður í fyrsta leikhlutanum. Hamlin var lífgaður við á vellinum og er á batavegi en er samt enn í öndunarvél.

NFL-deildin tók sér tíma um að ákveða um framhaldið en hefur nú tekið þá ákvörðun að lið Buffalo Bills og Cincinnati Bengals endi á því að spila einum leik færra en önnur lið í deildinni.

Þetta hefur áhrif á röð liðanna tveggja í úrslitakeppninni og gæti orðið til þess að úrslitaleikur Ameríkudeildarinnar fari fram á hlutlausum velli.

Til að svo verði þarf eitt af eftirtöldu að gerast.

1) Ef að Buffalo og Kansas City vinna bæði sína leiki um helgina eða gera bæði janftefli þá verður úrslitaleikur Bills og Chiefs spilaður á hlutlausum velli.

2) Ef að Buffalo og Kansas City tapa bæði um helgina á sama tíma og Baltimore vinnur eða gerir jafntefli þá verður úrslitaleikur Bills og Chiefs spilaður á hlutlausum velli.

3) Ef að Buffalo og Kansas City tapa bæði og Cincinnati vinnur um helgina þá verður úrslitaleikur Bills eða Bengals á móti Chiefs spilaður á hlutlausum velli.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×