Erlent

Tíu látnir í eldsvoða í spilavíti í Kambódíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikinn reyk leggur enn frá hótelinu.
Mikinn reyk leggur enn frá hótelinu. AP/Fresh News

Að minnsta kosti tíu eru látnir og tugir hafa særst í eldsvoða sem braust út í spilavíti í Poipet í Kambódíu seint í gærkvöldi. Hundruð björgunarmanna börðust við að hemja eldinn.

Fjölda myndskeiða af eldsvoðanum hefur verið deilt á samfélagsmiðlum en þau sýna Grand Diamond City hótelið og spilavítið í ljósum logum. Á sumum myndskeiðanna má sjá fólk fast inni og björgunarmenn reyna að ná til þess.

AFP hefur bráðabirgða lögregluskýrslu undir höndum þar sem segir að um tíu séu látnir og þrjátíu særðir. Aðrir miðlar segja særða vera mun fleiri.

Yfirvöld segja flesta látnu starfsmenn frá Kambódíu og Taílandi en heildarfjöldi starfsmanna er sagður í kringum 400. Margir særðu eru í lífshættu.

Meðal gesta á hótelinu voru erlendir ríkisborgarar.

360 viðbragðsaðilar og ellefu slökkvibílar voru sendir á vettvang. Fregnir hafa borist af því að eldurinn hafi náð að læsa sig í nærliggjandi byggingu.

Myndir eru farnar að berast af vettvangi, sem sýna meðal annars látið fólk á herbergjum hótelsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×