Erlent

Átta ung­lings­stúlkur á­kærðar fyrir morð á heimilis­lausum manni

Kjartan Kjartansson skrifar
Stúlkurnar hittust í miðborg Toronto og réðust á heimlislausan mann.
Stúlkurnar hittust í miðborg Toronto og réðust á heimlislausan mann. Vísir/Getty

Lögregla í Kanada hefur ákært átta unglingsstúlkur fyrir morð á tæplega sextugum heimilislausum manni í Toronto um helgina. Þær eru sakaðar um að hafa stungið manninn til bana.

Vegfarendur fundu manninn í blóði sínu skömmu eftir miðnætti á sunnudag. Hann hafði verið stunginn ítrekað. Maðurinn lést síðar á sjúkrahúsi. Hann hafði verið búsettur í neyðarskýli fyrir heimilislaust fólk.

Stúlkurnar, sem eru sagðar á aldrinum þrettán til sextán ára, voru handteknar nærri vettvangi og lagði lögregla hald á fjölda vopna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Þær höfðu kynnst á samfélagsmiðlum en þrjár þeirra höfðu áður komist í kast við lögin.

Terry Browne, rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Toronto, segir ekki liggja fyrir hvers vegna stúlkurnar hittust í miðborg Toronto. Talið er að þær hafi lent í átökum fyrr um kvöldið.

Kona sem býr í neyðarskýli hélt því fram í kanadískum fjölmiðlum að stúlkurnar hefðu stungið manninn í magann þegar hann reyndi að verja hana fyrir þeim. Stúlkurnar hafi reynt að neyða hana til að láta þær fá áfengi.

John Tory, borgarstjóri Toronto, segist sleginn yfir atburðinum, sérstaklega vegna þess hversu ungar stúlkurnar eru og hversu margar þeirra tóku þátt í atlögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×