Innlent

Um þrjú hundruð bílum komið af Grinda­víkur­vegi í nótt

Árni Sæberg skrifar
Í færslu Þorbjarnar á Facebook segir að jeppinn á myndinni sé tæplega þrír metrar á hæð.
Í færslu Þorbjarnar á Facebook segir að jeppinn á myndinni sé tæplega þrír metrar á hæð. Þorbjörn

Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík stóð í ströngu, ásamt Lögreglunni á Suðurnesjum og Vegagerðinni, við að létta á umferð og gera Grindavíkurveg færan. Áætlað er að um þrjú hundruð bílar hafi verið ferjaðir af veginum í bílalestum.

Í færslu Þorbjarnar á Facebook segir að þegar búið var að greiða leið fyrir stórtæk moksturstæki Vegagerðarinnar um Grindavíkurveg hafi verið ákveðið að létta á fjöldahjálparmiðstöð sem opnuð hafði verið í Grindavík. 

Þá hafi einnig mörg hundruð gestir verið fastir í Bláa lóninu og um þrjátíu bílar verið fastir á Stapanum.

Fólkið var ferjað í bílum sínum í bílalestum í fylgd með moksturs- og björgunartækjum. Í færslunni segir að það hafi gengið ákaflega vel og síðustu hópar hafi komið í hús í morgunsárið. Alls hafi um þrjú hundruð bílar hafi ferðast með bílalestunum.

„Það er ekki hægt að leysa svona uppákomur nema með einstaklega góðu samstarfi allra þeirra sem koma að málinu og það gekk svo sannarlega vel í nótt,“ segir í færslu Þorbjarnar.

Þá er fólki bent á að fykgjast vel með færð vega á safetravel.is eða vegagerdin.is, hyggi það á ferðalög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×