Erlent

Íranskar kvikmyndastjörnur fangelsaðar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Leikkonan Hengameh Ghaziani er sögð hafa verið hneppt í varðhald í gærkvöldi.
Leikkonan Hengameh Ghaziani er sögð hafa verið hneppt í varðhald í gærkvöldi. Amin Mohammad Jamali/Getty Images

Tvær Íranskar kvikmyndaleikkonur hafa verið handteknar í heimalandi sínu sakaðar um undirróðurstarfsemi gegn íranska ríkinu og fyrir að styðja við mótmælaölduna sem riðið hefur yfir landið síðustu mánuði.

Þær Hengameh Ghaziani og Katayoun Riahi höfðu báðar birt á samfélagsmiðlum myndir af sér þar sem þær eru ekki með slæður á höfði sínu og sýndu þannig mótmælendum stuðning í verki. Mótmælin gegn klerkastjórninni hófst eftir að ung kúrdísk kona, Mahsa Amini lést í haldi lögreglu eftir að hún hafði verið handtekin fyrir að brjóta gegn lögum um slæðunotkun á almannafæri.

Leikkonurnar, sem báðar eru þjóðþekktar og hafa fengið fjölda verðlauna voru handteknar í gærkvöldi að kröfu saksóknara en sífellt bætist í hóp mótmælenda og fjöldi þjóðþekktra einstaklinga hefur lagt baráttunni lið. Óttast er að yfirvöld hafi drepið um 400 mótmælendur til þessa og um 17 þúsund hafa lent í fangelsi.

Þá hafa fimm þegar verið dæmdir til dauða fyrir mótmæli gegn ríkinu.


Tengdar fréttir

Fyrsti mótmælandinn dæmdur til dauða í Íran

Fyrsti mótmælandinn hefur nú verið dæmdur til dauða í Íran vegna mótmæla sem hafa geisað þar í landi. Mótmælandinn er sakaður um að hafa kveikt í byggingu stjórnvalda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×