Fótbolti

Kroos ætlar að klára ferilinn hjá Real Madrid en veit bara ekki hvenær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Toni Kroos hefur átt frábær átta ár hjá Real Madrid.
Toni Kroos hefur átt frábær átta ár hjá Real Madrid. Getty/Angel Martinez

Toni Kroos hefur ekki ákveðið hvort hann framlengir samning sinn við Real Madrid eða ekki. Það er hins vegar ljóst að hann spilar ekki annars staðar.

Þessi 32 ára gamli þýski miðjumaður hefur spilað mjög vel á miðju Real Madrid á þessari leiktíð.

„Mér líður mjög vel líkamlega og ég er mjög ánægður,“ sagði Toni Kroos á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleik Real Madrid í kvöld.

„Ég er rólegur yfir samningamálunum. Þetta er frekar fyndið því stundum les ég hluti um mína framtíð sem ég sjálfur veit ekkert um. Ég hef sagt það áður að ég ætla að velta fyrir mér framtíðinni í HM-hléinu. Þá mun ég reyna að taka ákvörðun hvað sé best í stöðunni,“ sagði Kroos.

Kroos kom til Real Madrid frá Bayern München árið 2014 og hefur unnið Meistaradeildina fjórum sinnum með liðinu og spænsku deildina þrisvar.

„Ég hef alltaf sagt að ég fer ekki neitt. Ég mun ekki skipta um lið. Hér mun ég leggja skóna á hilluna,“ sagði Kroos.

„Það eina sem er vafi um er að ég veit ekki hvenær. Við sjáum til á næsta ári en bæði ég og félagið erum róleg yfir þessu. Við tölum saman í janúar, febrúar eða að það gæti verið í mars. Ekki vera stressuð yfir þessu því ég er það ekki,“ sagði Kroos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×