Innlent

Finna ekki vagnstjóra sem á að hafa verið ógnað með hníf

Eiður Þór Árnason skrifar
Ekki er vitað um líðan vagnstjórans að svo stöddu.
Ekki er vitað um líðan vagnstjórans að svo stöddu. Vísir/Vilhelm

Tveir farþegar veittust að vagnstjóra Strætó í Reykjavík í dag og á annar að hafa ógnað honum með hníf, að sögn lögreglu. Ekki liggur fyrir hvort ökumanni varð meint af og er málið sagt vera í rannsókn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segist í samtali við fréttastofu ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið þar sem honum hafi ekki tekist að finna umræddan vagnstjóra. „Það er enginn sem kannast við þetta á vaktinni hjá okkur í stjórnstöðinni. Ég setti af stað leit að þessu en við höfum ekki fundið þetta.“

Sýnt ógnandi hegðun eftir grunaðan þjófnað

Lögreglu var einnig tilkynnt um yfirstandandi innbrot fyrr í dag en þegar laganna verðir komu á vettvang reyndist gerandinn vera ofurölvi og áttavilltur, að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Var þeim ölvaða í kjölfarið ekið heim til sín.

Lögreglustöðinni á Hverfisgötu barst sömuleiðis tilkynning um ógnandi mann en þegar lögregla fann umræddan einstakling kom í ljós að hann var einnig grunaður í þjófnaðarmáli fyrr um daginn. Að sögn lögreglu fannst eitthvað af þýfinu á honum en öðru hafði hann komið undan. Einstaklingurinn var vistaður í fangageymslu vegna málsins.

Minnst fjórir ökumenn voru stöðvaðir á höfuðborgarsvæðinu í dag grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.

Fréttin hefur verið uppfærð með svörum frá framkvæmdastjóra Strætó.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×