Skoðun

Blaða­mennska í á­gjöf norð­lensks réttar­fars

Halldór Reynisson skrifar

Enn hefur lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra kallað fjóra blaðamenn til yfirheyrslu vegna tapaðs síma í eigu húskarls Samherja. Enn heyrist ekkert af yfirheyrslum yfir Samherjamönnum vegna meintar mútustarfssemi í þróunarlandi – örlítið stærra mál en tapaður sími.

Á árum áður þegar ég starfaði við blaðamennsku kom það fyrir að valdamiklir einstaklingar í stjórnmálum sæktu að blaðamönnum. Í seinni tíð eru fjárgróðamenn helsta ógnin við góða blaða- og fréttamennsku á Íslandi.

Af hverju skiptir máli að rannsaka Samherjamenn og meintar mútur frekar en símastuld? Vegna þess að sótt er að lýðræðinu og réttarríkinu um allan heim – einnig á Íslandi. Erlendis eru það auðmenn og harðstjórar, hérlendis helst þau sem auði safna. Fólk sem felur jafnvel peningana sína (stundum aflað úr menguðum sjó kvótakerfis) en notar þá svo til að koma höggi á andstæðinga sína.

Að manni læðist sá grunur að áhrifavald sjófurstanna á “gömlu góðu Akureyri” nái inn á borð lögreglustjórans þar í bæ. Nema að hann sé svo duglegur að leita uppi sérhvern stolinn síma í sínu umdæmi. Dugnaður sem ætti að vera sérstökum saksóknara til eftirbreytni í að leita uppi peningana í kjölfari Samherjamanna. Upp í hugann kemur réttarfarið á öldum áður þegar hungrað fólk var hengt fyrir stuld á snærisspotta á meðan valdsherrar komust upp með að sölsa undir sig lifibrauð annarra.

Stundum er eina vörn lýðræðisins “fjórða valdið”, - gagnrýnir blaðamenn sem sjá það sem hlutverk sitt að afhjúpa peningaslóðina. Blaðamenn sem hafa sannleiksleit að leiðarljósi. Starfa í þágu “almannahagsmuna” eins og það heitir á lagamáli. Feður vestræns lýðræðis höfðu það í huga þegar þeir brýndu réttinn til frjálsrar fréttamennsku.

Kannski ætti norðlensk löggæsla að rétta kúrsinn með því að leita í smiðju norðlensks skálds frá Gröf á Höfðastönd þegar það segir:

Vei þeim dómara´, er veit og sér,

Víst hvað um málið réttast er,

vinnur það þó fyrir vinskap manns,

að víkja´ af götu sannleikans.

Höfundur er blaðamaður




Skoðun

Skoðun

Drasl

Hafþór Reynisson skrifar

Sjá meira


×