Innlent

Tap Strætó aldrei verið meira

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Besta leiðin kostar víst sitt.
Besta leiðin kostar víst sitt. vísir/vilhelm

Á fyrstu sex mánuðum ársins tapaði Strætó um 600 milljónum króna og hefur tapið aldrei verið meira. Takmarkanir vegna heimsfaraldurs og erfiðleikar með nýtt greiðslukerfi, Klappið, settu strik í reikninginn en rekstrargjöld jukust um tólf prósent milli ára.

Þetta kemur fram í Árshlutauppgjöri Strætó. Strætó er jafnan rekinn með tapi en tapið á síðustu sex mánuðum ársins hefur aldrei verið meira. Á sama tímabili í fyrra tapaði Strætó 245 milljónum. Handbært fé var 733 milljónir í lok tímabils. Þar af eru 400 milljónir króna eyrnamerktar vagnakaupum og 347 milljónir króna eru fyrirframgreitt framlag eigenda.

Í uppgjörinu kemur einnig fram að farþegafjöldi í næturstrætó hafi verið undir væntingum. Farþegafjöldi hverrar helgar er á bilinu 300 til 340 farþegar, að meðaltali 14 til 16 í hverri ferð. Staðan á næturakstri verður endurmetinn í september.

Í viðtali Ríkisútvarpsins segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, að tapið hafi verið töluvert meira en áætlanir gerðu ráð fyrir.

„Verðbólguskotið, launakostnaður, stytting vinnuvikunnar, allt hefur þetta kostað meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrir þá kannski svona mismuninn milli áranna,“ er haft eftir Jóhannesi. Hann vonast til að þurfa ekki að fækka ferðum og forðast verði frekari niðurstkurð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×