Erlent

Fönguðu snekkju sökkva á myndband

Samúel Karl Ólason skrifar
MY Saga sökk á stuttum tíma þegar verið var að reyna að draga snekkjun að landi.
MY Saga sökk á stuttum tíma þegar verið var að reyna að draga snekkjun að landi.

Engan sakaði þegar stærðarinnar snekkja sökk undan ströndum Ítalíu um helgina. Strandgæsla Ítalíu birti í dag myndband af snekkjunni, sem bar nafnið MY Saga, sökkva.

Verið var að sigla snekkjunni frá Gallipoli til Miazzo á Sikiley á laugardaginn þegar halli kom á snekkjuna og sjór fór að flæða um borð. Nokkrum klukkustundum síðar var hún sokkin, um níu sjómílum út frá Catanzaro.

Við myndbandið sem birt var á Twitter-síðu Strandgæslu Ítalíu var skrifað að snekkjan væri um 40 metra löng og verið væri að rannsaka af hverju hún hefði sokkið.

Ítalska fréttaveitan ANSA segir snekkjunni hafa verið siglt undir fána Cayman-eyja en áhöfnin hafi verið ítölsk.

Reynt var að nota dráttarbát til að draga snekkjuna til hafnar í Crotone en það reyndist ómögulegt. Sjávarflóðið um borð var orðið svo mikið að skera þurfti á taugina og mun snekkjan hafa sokkið hratt í kjölfar þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×