Fótbolti

Maðurinn sem lífgaði við Christian Eriksen bjargaði öðru lífi á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Morten Boesen er læknir danska landsliðsins sem bjargaði lífi Christian Eriksen.
Morten Boesen er læknir danska landsliðsins sem bjargaði lífi Christian Eriksen. Getty/UEFA

24 ára stuðningsmaður FC Kaupmannahafnar fór í hjartastopp á Evrópuleik liðsins á móti tyrkneska félaginu Trabzonspor í síðustu viku en sá hinn sami getur þakkað líf sitt manni sem gerir það að vana sínum að bjarga mannslífum á stærsta fótboltaleikvangi Dana.

Stuðningsmaðurinn var lífgaður við á vellinum og heilsast vel eftir aðstæðum samkvæmt fréttatilkynningu frá FCK.

Það voru tveir áhorfendur sem komu honum til bjargar í stúkunni eða FCK-læknirinn Morten Boesen og FCK-sjúkraþjálfarinn Johannes Mackeprang. Þeir lífguðu hann við í sameiningu. TV2 segir frá.

Stuðningsmaðurinn var síðan fluttur í sjúkrabíl á Rigshospitalet. Hann var um tíma í dái og í öndunarvél en komst aftur til meðvitundar.

Morten Boesen er einnig læknir danska landsliðsins. Hann kom einnig til bjargar þegar Christian Eriksen hneig niður í leik Dana og Finna á Evrópumótinu í fyrra.

Boesen og aðstoðarmenn hans náðu að lífga Eriksen við og hann spilar fótbolta í dag með liði Manchester United.


Tengdar fréttir

Eriksen brosandi og þakklátur í nýrri kveðju

Danski landsliðsmaðurinn Christian Eriksen er enn á sjúkrahúsi að jafna sig eftir að hafa verið lífgaður við á fótboltavellinum á laugardaginn var. Hann vildi þakka öllum fyrir stuðninginn og sendi frá sér mynd og kveðju á samfélagsmiðlum.

Lækna-Tómas hrósar viðbragðsaðilum á Parken

Tómas Guðbjartsson, skurðlæknir á Landspítalanum, segir að fagmannlega hafi verið staðið að fyrstu hjálp þegar Christian Eriksen, leikmaður Danmerkur, hné niður í miðjum leik Danmerkur og Finnlands á Parken í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×