Erlent

Af­lýstum flugferðum fjölgar dag­lega á meðan SAS reynir að semja við flug­menn

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Samningaviðræðurnar hafa tekið langan tíma og samningaaðilar hafa ekki viljað tjá sig neitt um stöðu mála.
Samningaviðræðurnar hafa tekið langan tíma og samningaaðilar hafa ekki viljað tjá sig neitt um stöðu mála. NurPhoto/Getty

Samningaviðræður milli skandínavíska flugfélagsins SAS og flugmanna félagsins halda áfram í dag. Samningsaðilar hafa fundað síðan á laugardagsmorgun til að reyna að leysa verkfallsástand sem hófst 4. júlí þegar í kringum 900 starfsmenn félagsins fóru í verkfall.

Verkfallið hefur staðið yfir frá 4. júlí, í þrettán daga, þegar um 900 norskir, danskir og sænskir flugmenn SAS lögðu niður störf eftir að kjaraviðræður við stjórnendur félagsins sigldu í strand. Stærsta óánægjuefni flugmanna félagsins tengist aðgerðum SAS eftir heimsfaraldur. 

Í faraldrinum var um 40 prósent starfsmanna sagt upp og eru starfsmenn óánægðir með að félagið noti dótturfélag sitt til að ráða inn nýja flugmenn til starfa á lægri launum. Þá er einnig óánægja með að fyrirtækið hafi ekki endurráðið starfsfólk sem það sagði upp í heimsfaraldrinum.

Margra milljóna tap og þúsundir finna fyrir aflýsingum

Nú þegar verkfallið hefur staðið yfir í þrettán daga hefur þurft að aflýsa meira en 2.500 flugum félagsins og meira 270.000 farþegar hafa fundið fyrir afleiðingum þess. 

Í gær þurfti að aflýsa meira en 130 flugferðum og í dag hefur þurft að aflýsa 154 flugferðum samkvæmt Avinor. Samningsaðilar hafa ekkert viljað tjá sig en segja að viðræðurnar haldi áfram í dag.

Útlitið er ekki gott fyrir flugfélagið sem er verulega skuldsett og þurfti að sækja um gjaldþrotaskipti eftir að verkfallið hófst. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×