Innlent

Bjargey kemur þeim sem á þurfa að halda til bjargar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra sagði við opnun meðferðarheimilisins að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hann hafi fengið að klippa borða í ráðherratíð sinni.
Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra sagði við opnun meðferðarheimilisins að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hann hafi fengið að klippa borða í ráðherratíð sinni. Vísir/Tryggvi

Bjargey, nýtt meðferðarheimili ætlað börnum og stúlkum, var formlega opnað í Eyjafjarðarsveit í gær. Meðferðin sem þar er veitt er lífspursmál fyrir þá sem á henni þurfa að halda að mati aðstandenda heimilisins.

Heimilið er staðsett við Laugaland þar sem um árabil var rekið einkarekið meðferðarheimili fyrir stúlkur. Barna- og fjölskyldustofa hefur nú opnað nýtt ríkisrekið heimili í húsnæðinu. Engin starfsemi hefur verið í húsinu frá því á janúar á síðasta ári, þar til nú.

„Hér koma stúlkur og kynsegin sem eru að sýna alvarlega andfélagslega hegðun og eiga þá annað hvort afbrota- eða neyslusögu eða eitthvað slíkt, alvarlega hegðunarörðugleika,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðasviðs Barna- og fjölskyldustofu.

Ásmundur Einar Daðason barnamálaráðherra fékk þann heiður að opna heimilið, sem fengið hefur nafnið Bjargey. 

„Markmið hér er að búa þessum krökkum sem koma hingað betra líf. Kynna þau í rauninni fyrir því sem gott er og vinna sértækt í þeirra vanda,“ segir Funi.

Heimilið opnar nýja möguleika í meðferðarkerfinu fyrir ungmenni.

„Þetta skiptir sköpum fyrir okkar meðferðarkerfi. Við höfum verið í mjög fábrotnu umhverfi þar sem við höfum haft Stuðla og Lækjarbakka. Þetta hefur bara verið of lítið. Þetta er alveg mjög kærkomin viðbót,“ segir Funi.

Tvær stúlkur eru þegar fluttar inn, en pláss er fyrir fjögur til fimm ungmenni í einu.

„Þetta er seinasta hálmstráið í okkar úrræðum hvað varðar börn. Þetta er langtímameðferð þannig að hér koma bara þeir sem virkilega þurfa á því að halda og þetta er held ég bara lífspursmál.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×