Erlent

Þúsundir söfnuðust saman í Osló þvert á tilmæli lögreglu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sumir aðgerðasinnar mótmæltu ákvörðun lögreglu að fara fram á frestun viðburða á Pride.
Sumir aðgerðasinnar mótmæltu ákvörðun lögreglu að fara fram á frestun viðburða á Pride. Getty/Rodrigo Freitas

Þúsundir hunsuðu viðvaranir lögreglu í Osló í gær og komu saman við ráðhús borgarinnar til að mótmæla ofbeldi gegn hinsegin fólki og til að minnast þeirra sem létust í hryðjuverkaárás við hinsegin skemmtistað á laugardag.

Tveir létust og 21 særðist í árásinni og lögregla beindi þeim tilmælum til skipuleggjenda í kjölfarið að öllum viðburðum sem voru á dagskrá í gær í tengslum við Hinsegin daga, eða Pride, yrði frestað.

Sagðist hún ekki getað tryggt öryggi þátttakenda.

Þúsundir fóru hins vegar gegn ráðleggingum lögreglu og mættu við ráðhúsið með mótmælaspjöld sem meðal annars sögðu: „Þið getið ekki slaufað okkur“ og „Kynferðislegt frelsi“.

Um var að ræða mótmæla- og minningarathöfn.Getty/Rodrigo Freitas

„Mér finnst ég mun öruggari hér en nokkurs staðar annars staðar,“ sagði Marie Sværen, ein viðstaddra, við NRK. „Það er til að sýna að baráttan heldur áfram,“ svaraði Rain Vangen Dalberg, spurð að því hvers vegna hún hefði ákveðið að mæta við ráðhúsið.

Sumir aðgerðasinnar hafa gagnrýnt ákvörðun lögreglu og segja það hlutverk hennar að vernda fólk frá öfgamönnum en ekki láta undan þeim.

Lögregla segir enn ekki ljóst af hverju árásarmaðurinn, Zaniar Matapour, lét til skarar skríða en hann hefur neitað að svara spurningum lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×