Skoðun

Hversu löng eru fjögur ár?

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir skrifar

Mig langar að stunda stjórnmál þar sem íbúar bæjarins fá að segja skoðun sína oftar en á fjögurra ára fresti. Líf fólks getur gjörbreyst á þeim tíma, aðstæður þess og kröfur orðið aðrar og fyrir vikið getur fólk þurft að reiða sig á annars konar þjónustu en þegar það gekk síðast að kjörborðinu í sveitarstjórnarkosningum. Ef að vika er langur tími í pólitík, hversu löng eru þá fjögur ár í lífi bæjarbúa?

Við Píratar störfum eftir skýrri grunnstefnu. Þar segir meðal annars að öll eigi að hafa rétt á aðkomu að ákvarðanatöku um málefni sem varða þau sjálf. Okkur finnst þetta ekkert sérstaklega flókið. Ef stjórnmálafólk er að taka ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf fólks þá á fólk að geta haft bein áhrif á þær ákvarðanir. Þetta teljum við vera sérstaklega mikilvægt í sveitarfélögum, enda veita sveitarfélögin margvíslega þjónustu sem stendur íbúum nærri. Ákvarðanir bæjarstjórnar geta haft margvísleg áhrif á líf bæjarbúa og ekkert nema eðlilegt að bæjarbúar fái að hafa áhrif á þær.

Í þessu samhengi erum ekki aðeins að tala um að leyfa fólki að ákveða hvar setja eigi upp næsta ærslabelg eða róluvöll. Bæjarbúum er nefnilega fyllilega treystandi til að hafa áhrif á mikilvægari mál, með fullri virðingu fyrir ærslabelgjum. Íbúar eru fullkomlega færir um að setja mark sitt á skóla-, velferðar- og skipulagsmál, sem og forgangsröðun viðhaldsverkefna og framkvæmda í hverfunum svo eitthvað sé nefnt. Það er því óneitanlega dapurlegt að í Kópavogsbæ, næststærsta sveitarfélagi landsins með um 39 þúsund íbúa, skulu ekki vera starfrækt íbúaráð á vegum stjórnsýslunnar.

Píratar í Kópavogi vilja bæta úr því. Við viljum auka samráð við bæjarbúa. Við viljum efla bæði lýðræðislega þátttöku íbúa sem og lýðræðisleg vinnubrögð stjórnsýslunnar og koma á fót íbúaráðum í hverju hverfi fyrir sig. Þannig væri hægt að tryggja samráð við Kópavogsbúa á öllum stigum, valdefla íbúa og gefa okkur öllum þá tilfinningu að við skiptum einhverju máli í bænum okkar. Fyrir utan það auðvitað að stjórnmálafólk veit ekkert alltaf best og því er mikilvægt að bæjarbúar geti veitt almenninlegt aðhald, oftar en á fjögurra ára fresti.

Stefna bæjarstjórnar er skýr: „Kópavogur er samfélag sem byggir á lýðræðislegum ákvörðunum þar sem íbúarnir hafa áhrif á eigin mál.“ Þetta er því bara spurning um að framkvæma. Það ætlum við Píratar að gera.

Höfundur er bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Skuggasund

Margrét Kristín Blöndal skrifar

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×