Erlent

Karl krón­prins flutti stefnu­ræðuna í fjar­veru drottningar

Atli Ísleifsson skrifar
Karl Bretaprins í breska þinghúsinu fyrr í dag.
Karl Bretaprins í breska þinghúsinu fyrr í dag. AP

Karl Bretaprins flutti í morgun stefnuræðu bresku ríkisstjórnarinnar í breska þinghúsinu í morgun. Þetta er í fyrsta sinn sem hinn 73 ára Karl heldur slíka ræðu, en hann var fenginn í verkið þar sem Elísabet drottning hafði boðað forföll vegna veikinda.

Hin 96 ára Elísabet hefur flutt allar stefnuræður bresku ríkisstjórnarinnar frá árinu 1963 en þá boðaði hún forföll þar sem hún var barnshafandi.

Í ræðunni ræddi Karl meðal annars um nauðsyn vaxtar bresks efnahagslífs til að hægt verði að tryggja íbúum bætt lífsgæði og sömuleiðis nauðsyn fyrir aukinni fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu. Þá var minnst á nokkur af þeim 38 lagafrumvörpum sem verða lögð fyrir þingið á komandi ári.

Breski þjóðhöfðinginn flytur vanalega stefnuræður bresku ríkisstjórnarinnar þar sem lagðar eru línurnar í stefnu og störfum ríkisstjórnarinnar.

Umræður um stefnuræðuna fara svo fram á þinginu síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×