Innlent

Forseti Íslands heimsækir Færeyjar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson er búinn að jafna sig á Covid-19 smiti sínu og farinn á ferð og flug.
Guðni Th. Jóhannesson er búinn að jafna sig á Covid-19 smiti sínu og farinn á ferð og flug. Vísir/Egill

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, heldur í kvöld til Færeyja vegna opinberrar heimsóknar dagana 10. og 11. maí. Heimsóknin hefst á morgun þriðjudag í Þinganesi í Þórshöfn þar sem forseti fundar með lögmanni Færeyja, Bárði á Steig Nielsen.

Þaðan liggur leiðin til Eiðis á Austurey þar sem forseti heimsækir Sigrúnu Gunnarsdóttur myndlistarkonu sem tekur á móti honum í stúdíói sínu og segir frá list sinni. Þá verður haldið til Syðrigötu, þar sem forseti hittir arkitektinn Ósbjørn Jacobsen, aðalarkitekt tónlistarhússins Hörpu í Reykjavík. Loks verður ekið til Glyvrar á Austurey, þar sem forseti á hádegisverðarfund með bæjarstjóra Rúnavíkur, Torbjørn Jacobsen.

Á leið aftur til Þórshafnar verður numið staðar í stærsta samgöngumannvirki Færeyja, neðansjávargöngunum milli Straumeyjar og Austureyjar. Þar taka á móti forseta Brandur Patursson myndlistarmaður og Teitur Samuelsen, forstjóri verktakafyrirtækisins P/F Eystur- og Sandoyartunlar, og segja þeir forseta frá gerð ganganna og listaverkinu sem þau prýðir.

Síðdegis á þriðjudag á forseti fund í sendiráðsbústað Íslands í Þórshöfn með hópi Færeyinga sem komu að frækinni björgunaraðgerð eftir flugslysið í Mykinesi 26. september 1970. Þá brotlenti vél Flugfélags Íslands með þeim afleiðingum að átta manns létust en 26 var bjargað. Þess verður minnst að rúm 50 ár eru nú liðin frá atburðinum.

Að þeirri athöfn lokinni flytur forseti fyrirlestur við Fróðskaparsetur Færeyja, háskólann í Þórshöfn, með yfirskriftinni „Nationalism in Turbulent Times: Lessons for Small Nations in the North Atlantic“.

Miðvikudaginn 11. maí á forseti fund með borgarstjóra Þórshafnar, Heðin Mortensen, í ráðhúsinu. Að þeim fundi loknum flýgur forseti til Mykiness þar sem gengið verður á fjallið Knúk að minnisvarða sem reistur hefur verið um flugslysið og björgunina. Þá býður bæjarstjórinn í Mykinesi til hádegisverðar en síðdegis heldur forseti loks að Vágum og flýgur þaðan til Keflavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×