Skoðun

Vill borgarstjóri selja Félagsbústaði?

Sandra Hlíf Ocares skrifar

Borgarstjóri stærði sig að því á dögunum að Reykjavíkurborg hefði skilað 23 milljarða hagnaði á á síðasta ári.

Þegar nánar er að gáð er staðan hins vegar allt önnur. Grunnrekstur borgarinnar er rekinn með 4 milljarða króna tapi, og borgarsjóður því ósjálfbær. Með öðrum orðum - innheimtar skatttekjur duga ekki til að reka grunnþjónustuna.

Rekstri Reykjavíkurborgar er skipt í tvennt: a) A-hluta - sem er grunnrekstur borgarinnar, þ.e.a.s innheimtar skatttekjur á tekjuhliðinni, og þjónusta til borgarbúa á útgjaldahliðinni, og b) B-hluta – dótturfélög borgarinnar, þar sem Orkuveitan og Félagsbústaðir vega langþyngst.

Þessi “hagnaður” sem borgarstjóri vísar til er að langmestu til kominn vegna breytinga á virðismati fasteigna í eigu Félagsbústaða. Virðismatshækkun þessara fasteigna nam tæpum 21 milljarði á síðasta ári.

Hækkanir á verðmati eru að miklu leyti háðar mati stjórnenda viðkomandi fyrirtækis. Það er því engin tilviljun að hækkun í nýbirtu uppgjöri – sem birt er á kosningavori – er meiri en sú sem borgarstjóra þótti óhætt að taka inn í reikninginn síðustu fjögur árin á undan samanlagt.

Nú skulum við horfa framhjá því að líkur eru til þess að Eftirlisstofnun EFTA taki endanlega fyrir uppgjörsaðferð borgarstjóra á Félagsbústöðum með tugmilljarða tjóni fyrir borgarsjóð. Hvað sem því líður er staðreyndin er þó sú að meintur “hagnaður” borgarstjóra byggist einvörðungu á lofti og fjárhagslegum loftfimleikum. Þetta eru ekki raunverulegir fjármunir sem nýtast til rekstrar.

Félagsbústaðir eru óhagnaðardrifið félag sem heldur utan um félagslegt húsnæði í eigu borgarinnar. Þessi 21 milljarður verður því aldrei að rekstrarfé fyrir borgarsjóð, og verður sannarlega ekki nýttur í þágu borgarbúa.

Ekki nema að Borgarstjóri ætli sér að selja Félagsbústaði?

Höfundur er í 8. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Verður þér að góðu?

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir, ,Hólmfríður Sigþórsdóttir skrifar

Sjá meira


×