Enski boltinn

Manchester City biðst afsökunar á hegðun stuðningsmanna

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Einhverjum stuðningsmönnum fannst við hæfi að syngja á meðan leikmenn heiðruðu minningu þeirra 97 einstaklinga sem létust í mannskæðasta slysi breskrar íþróttasögu.
Einhverjum stuðningsmönnum fannst við hæfi að syngja á meðan leikmenn heiðruðu minningu þeirra 97 einstaklinga sem létust í mannskæðasta slysi breskrar íþróttasögu. Shaun Botterill/Getty Images

Enska knattspyrnufélagið Manchester City hefur beðist afsökunar á hegðun stuðningsmanna liðsins eftir leik City og Liverpool í undanúrslitum FA-bikarsins í gær. Einhverjir stuðningsmenn liðsins sungu hástöfum á meðan mínútuþögn fyrir leikinn stóð yfir.

Fyrir leikinn var gerð mínútuþögn til að minnast þeirra 97 einstaklinga sem fórust í Hillsborough slysinu fyrir 33 árum, þann 15. apríl 1989.

Dómari leiksins, Michael Oliver, þurfti hins vegar að rjúfa þögnina áður en mínútan var liðin þar sem að einhverjum stuðningsmönnum Manchester City þótti það við hæfi að syngja hástöfum á meðan þögninni stóð.

„Knattspyrnufélagið Manchester City er virkilega vonsvikið út í hegðun nokkurra stuðningsmanna liðsins á meðan þögninni fyrir leikinn stóð,“ sagði talsmaður Englandsmeistaranna.

„Félagið biður alla þá sem eru tengdir Liverpool á einhvern hátt innilegrar afsökunar.“

Margir stuðningsmenn Liverpool bauluðu á stuðningsmenn andstæðinganna þegar Michael Oliver þurfti að rjúfa þögnina.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að á stundum sem þessum verði fólk að leggja keppnisskapið til hliðar.

„Ég heyrði að City hefði sent frá sér yfirlýsingu sem er gott,“ sagði Klopp. „Það eru augnablik í fótboltanum þar sem öll samkeppni á að vera lögð til hliðar. Ég er viss um að þetta voru ekki allir stuðningsmenn City, en vonandi fengu þeir sem voru að þessu orð í eyra frá þeim sem voru í kringum þá.“

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, tók í sama streng og kollegi sinn.

„Þetta fólk stendur ekki fyrir það sem við erum. Félagið hefur sent frá sér yfirlýsingu sem ég styð algjörlega,“ sagði Spánverjinn.

Eins og áður segir fórust 97 stuðningsmenn Liverpool þann 15. apríl 1989. Slysið átti sér stað á Hillsborough-vellinum á undanúrslitaleik FA-bikarsins þar sem Liverpool og Nottingham Forest áttust við. Enn þann dag í dag er þetta mannskæðasta slys breskrar íþróttasögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×