Fótbolti

Mikael lék allan leikinn í tapi og Aron Elís kom inná í sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron Elís Þrándarson í leik með OB.
Aron Elís Þrándarson í leik með OB. Lars Ronbog/FrontZoneSport via Getty Images

Mikael Anderson lék allan leikinn á vinstri kanti í 0-2 tapi AGF gegn Viborg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Á sama tíma kom Aron Elís Þrándarson inn af varamannabekknum í 2-1 sigri OB gegn Vejle.

Ekkert mark var skorað í fyrri hálfleik er AGF tók á móti Viborg, en gestirnir tóku forystuna eftir klukkutíma leik. Þeir tryggðu sér svo sigurinn með marki á lokamínútunum, lokatölur 0-2.

Eins og áður segir lék Mikael allan leikinn fyrir AGF sem situr í þriðja sæti neðri hluta deildarinnar með 28 stig eftir 25 leiki, sex stigum á eftir Viborg. Jón Dagur Þorsteinsson var ekki í leikmannahópi AGF vegna meiðsla.

Á sama tíma fór fram leikur OB og Vejle, en Aron Elís Þrándarson hóf leik á varamannabekk OB.

Heimamenn í OB náðu forystunni snemma í síðari hálfleik áður en gestirnir jöfnuðu metin þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Aron Elís hafði komið inn á sem varamaður nokkrum mínútum áður.

Aron Elís og félagar unnu þó að lokum leikinn, en sigurmarkið skoraði Sander Svendsen á seinustu mínútu venjulegs leiktíma.

Sigurinn lyfti OB upp fyrir AGF, en liðið situr nú í öðru sæti neðri hlutans. OB er með 28 stig, líkt og AGF, en með betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×