Fótbolti

Óttar tryggði Oakland stig á lokasekúndunum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Óttar Magnús Karlsson í leik með Víkingum.
Óttar Magnús Karlsson í leik með Víkingum. Vísir/Bára

Óttar Magnús Karlsson reyndist hetja Oakland Roots er liðið tók á móti toppliði San Diego Loyal í næstefstu deild bandaríska fótboltans í nótt. Lokatölur urðu 2-2, en Óttar jafnaði metin þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af uppbótartímanum.

Gestirnir í San Diego Leyal tóku forystuna snemma í síðari hálfleik og ekki batnaði útlitið fyrir heimamenn þegar Tarek Morad lét reka sig af velli á 64. mínútu. Óttar og félagar þurftu því að leika seinustu 25 mínútur leiksins manni færri.

Það kom þó ekki að sök því liðið jafnaði metin þegar rétt um fimm mínútur voru til leiksloka. Þeir gátu þó ekki fagnað lengi því á lokamínútu venjuleg leiktíma kom Grant Stoneman gestunum í San Diego yfir á nýjan leik.

Þrátt fyrir að vera manni færri og marki undir í uppbótartímanum gáfust Óttar og félagar ekki upp. Það varð til þess að liðið jafnaði metin þegar aðeins nokkrar sekúndur voru eftir af þeim fjórum mínútum sem bætt var við. Þar var á ferðinni Óttar Magnús Karlsson þegar hann stangaði fyrirgjöf Emrah Klimenta í netið og tryggði liðinu þar með 2-2 jafntefli.

San Diego Loyal situr þó enn í toppsæti deildarinnar með 16 stig eftir sjö leiki, en Óttar og félagar sitja sem fastast á botninum með þrjú stig. Oakland Roots birti myndband af marki Óttars á Twitter-síðu sinni og hægt er að sjá það hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×